Starfsemin
Isavia ANS

Isavia ANS er dótturfélag Isavia og sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi í flugleiðsögusvæði yfir Norður - Atlantshafinu sem kallast á ensku "Reykjavik Control Area".
Íslenska flugstjórnarsvæðið er um fimm og hálf milljón ferkílómetrar að stærð og er það eitt stærsta flugstjórnarsvæði heims. Svæðið nær frá Greenwich-lengdarbaugnum í austri og vestur fyrir Grænland, frá Norðurpólnum og suður fyrir Færeyjar, langleiðina til Skotlands.
Að meðaltali fara um 400 flugvélar um íslenska flugstjórnarsvæðið á sólarhring.
Flugstjórnarmiðstöð

Í flugstjórnarmiðstöð starfa rúmlega 100 manns, bæði flugumferðarstjórar og fluggagnafræðingar. Að auki eru starfandi sérfræðingar í stoðdeildum svo sem verkfræðingar, hugbúnaðarsérfræðingar, rafeindavirkjar, rafvirkjar og fleiri. Hlutfall kvenna er um 38% og meðalaldurinn rétt rúmlega 41 ár.
Margir starfsmenn Flugstjórnarmiðstöðvar, flugumferðarstjórar jafnt sem fluggagnafræðingar, sinna öðrum störfum hjá öðrum deildum samhliða vaktavinnu í Flugstjórnarmiðstöð. Önnur störf eru margvísleg og hjá mismunandi deildum svo sem í Þjálfun, Verklagi, Þróunardeild, Verkefnastofu við kerfishönnun og prófanir, Rannsóknarhópi atvika, við útgáfu flugupplýsinga (NOTAM) og á skrifstofu Flugstjórnarmiðstöðvar.
Flugfjarskipti

Fjarskiptastöðin heldur uppi talfjarskiptum á stuttbylgju og á metrabylgju í náinni samvinnu við fjarskiptastöðina í Ballygirreen á Írlandi. Fjarskiptin fara fram á ensku og felast í móttöku og sendingu á skeytum er varða öryggi flugsins svo sem staðarákvarðanir, margvíslegar flughæða-, hraða- og flugleiðabreytingar, veðurskeyti, upplýsingar um lendingarskilyrði á flugvöllum og því um líkt.
Skeytum frá flugvélum er dreift eftir atvikum til flugstjórnarmiðstöðva, veðurstofu og flugrekenda.
Starfsemi fjarskiptastöðvarinnar í Gufunesi skiptist í tvö megin svið:
- Talviðskipti við flugvélar (Aeronautical Mobile Service - AMS)
- Rekstur á AFTN/AMHS skeytarofa (Aeronautical Fixed Sercvice - AFS).
Sá hluti starfsemi fjarskiptastöðvarinnar sem snýr að talviðskiptum við flug er miklu stærri og krefst meiri mannafla. Í úthafsflugumferðarstjórn sjá fjarskiptastöðvarnar um talviðskipti við flugmenn nema þegar flugvélin er undir kögunar (ratsjár/ADS-B) flugumferðarstjórn. Fjarskiptamaðurinn tekur við skeytum frá flugumferðarstjóra og kemur þeim til skila til viðkomandi flugvélar og öfugt.
Algengu þjónusturnar eru:
- Tilkynningar um stöðumið frá flugvélum
- Óskir um breytingar á flughæðum eða flugleiðum frá flugmönnum
- Afgreiðsla flugheimilda frá flugstjórnarmiðstöðinni
- Veðurupplýsingar til og frá flugmönnum
- Upplýsingar til aðgerðastjórnstöðva flugrekenda
Frá fjarskiptastöðinni í Gufunesi er veitt þjónusta allan sólarhringinn á HF og VHF GP tíðnum. Í stöðinni eru alls átta fjarskiptaborð til að sinna flugfjarskiptum.
VHF þjónustan er samfelld yfir Atlantshafið, búnaður er staðsettur í Færeyjum, Íslandi og á Grænlandi. Unnið er á 126.550 og 127.850.
Þjálfun

Isavia ANS annast rekstur íslensku flugleiðsöguþjónustunnar og er stærsti starfsvettvangur flugumferðastjóra á Íslandi.
Flugumferðarstjórar stýra flugumferð á flugvöllum á Íslandi og í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem er eitt það stærsta í heiminum.
Isavia ANS hefur áratuga langa reynslu af þjálfun og menntun flugumferðastjóra.
Til þess að hefja nám í flugumferðarstjórn þurfa einstaklingar:
- Að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.
- Æskilegast er að umsækjendur séu á aldrinum 18 – 35 ára.
- Tala og rita mjög góða íslensku og ensku. Viðkomandi þarf að ná að lágmarki CEFRL stigi B2.
- Að vera góðir í mannlegum samskiptum og starfa í hópi.
- Að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og eiga gott með að taka ákvarðanir.
- Að standast læknisskoðun og skimun fyrir geðvirk efni skv. reglugerðarkröfum um flugumferðarstjóra.
Með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini og einkunnum úr námi.
Nám hjá Isavia ANS í flugumferðarstjórn er frábrugðið flestu námi. Námið skiptist í þrjá hluta; grunnnám, áritunarnám og starfsþjálfun og stífar kröfur eru gerðar um námsárangur í hverjum hluta.
Grunnnám er kennt í staðnámi með möguleika á fjarnámi að hluta og stendur yfir í um 25-30 vikur. Grunnnámið skiptist í undirstöðu-og réttindaþjálfun sem eru bókleg og verkleg kennsla sem samanstendur af námskeiðum um flugleiðsögu, veðurfræði, flugleiðsögukerfi, flugvélar, mannþáttafræði, lög flugleiðsögu, vinnuumhverfi flugumferðarstjóra og fleira.
Að loknu grunnnámi hefst áritunarnám. Áritunarnámið er kennt í dagskóla (8-16) þar sem að nemar eru í fyrirlestrum, æfingum og vinnu í flugstjórnarhermi. Einhver munur er á lengd námsins eftir því á hvaða starfsstöð viðkomandi er valinn á.
Deildarþjálfun samanstendur af bóklegri og verklegri kennslu hjá Þjálfun og í framhaldi af því starfsþjálfun á starfsstöð. Starfsþjálfunin er einstaklingsmiðuð og er lágmarks og hámarkstími tilgreindur í þjálfunaráætlun, en ætla má að heildarnámstími til réttinda se u.þ.b 2 ár. Í starfsþjálfun fer nemi inn á vaktir og starfar undir handleiðslu flugumferðarstjóra. Í starfsþjálfun þarf nemi að uppfylla ákveðin framfaramöt reglulega sem hluta af námi sínu. Á meðan nemi er í starfsþjálfun fær hann greiddan mánaðarlegan námsstyrk. Isavia ANS innheimtir engin skólagjöld.
Nám í flugfjarskiptum er sérhæft nám og er eingöngu ein slík starfsstöð á Íslandi.
Helstu verkefni flugfjarskiptamanna er að miðla heimildum, taka við heimildabeiðnum, veðurlestur, taka við staðarákvörðunum og tíðniúthlutun. Starfið er fjölþætt og þurfa því flugfjarskiptamenn að standast árlega síþjálfun og hæfnismat.
Til að hefja nám í flugfjarskiptum þurfa einstaklingar að:
- Að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.
- Tala og rita mjög góða íslensku og ensku.
- Að vera góðir í mannlegum samskiptum og starfa í hópi.
- Að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og eiga gott með að taka ákvarðanir.
- Undirganga lesblindu-, heyrnar- og ritvinnslupróf.
Námið skiptist í 2 hluta
- Fyrri hluti er bland af bóklegri þjálfun og hermaþjálfun(10 vikur). Í bóklega hlutanum er farið yfir flugleiðsögu, veðurfræði, íslenska flugstjórnarsvæðið og margt fleira. Í hermaþjálfun fara nemar í æfingar sem undirbúa þau fyrir næsta fasa. Öllum bóklegum prófum skal ljúka með að lágmarki 75% árangri og er einn upptökuréttur.
- Seinni hluti fer fram í flugfjarskiptasal þar sem nemar fá úthlutað kennara sem mun kenna þeim í live traffic. Þessi hluti tekur að lágmarki 45 vaktir og lýkur með verklegu hæfnismati. Falli nemi í hæfnismati hefur hann einn upptökurétt.
Störf fluggagnafræðinga felast m.a. í vöktun flugstjórnarkerfa fyrir flugstjórnarmiðstöð, samskiptum við flugrekendur, flugafgreiðsluaðila og flugmenn vegna flugáætlana o.m.fl. Fluggagnafræðingar sjá svo um afleysingu NOTAM skrifstofu þegar forföll verða.
Þeim sem standast lokaprófin verður boðið starf fluggagnafræðings. Unnið er á dag- og næturvöktum.
Menntunar- og hæfniskröfur:
- Stúdentspróf eða sambærileg menntun
- Tölvukunnátta og góður skrifhraði á tölvu æskilegur
- Góð íslensku- og enskukunnátta bæði í töluðu og rituðu máli
- Nýnemar þurfa að standast lesblindupróf
Námið skiptist í 2 hluta
- Fyrri hluti er blanda af bóklegri þjálfun og þjálfun í hermi (10 vikur). Í bóklega hlutanum er farið yfir flugleiðsögu, veðurfræði, íslenska flugstjórnarsvæðið, flugstjórnarkerfin, vöktun kerfa, system operator hlutverk og margt fleira. Í herminum fara nemar í æfingar sem system operator og til að undirbúa þau fyrir verklegt nám í Flugstjórnarmiðstöðinni með kennara. Öllum bóklegum prófum skal ljúka með að lágmarki 75% árangri. Lokaprófin í bóklega hlutanum eru svo tvö og það þarf að ná þeim báðum með lágmark 75% árangri og það er einn upptökuréttur á hvort próf.
- Seinni hluti náms fer fram í flugstjórnarsal þar sem nemar fá úthlutað kennara sem mun kenna þeim í live traffic í vinnustöðu. Þessi hluti tekur að lágmarki 24-48 vaktir og lýkur með verklegu hæfnismati sem er tvískipt. Annars vegar í vinnustöðu í live traffic og hins vegar í hermaumhverfi. Falli nemi í öðrum hvorum hluta hæfnismatsins þá hefur hann einn upptökurétt.
Nemendur eru á launum á námstímanum.
Starfið er mjög fjölbreytt og í stöðugri þróun og fara fluggagnafræðingar í síþjálfun nokkrum sinnum á ári til að halda sér við og læra nýjungar. Á 3.ára fresti þurfa fluggagnafræðingar að standast hæfnismat.
Flugradíómenn veita flugupplýsingaþjónustu á óstjórnuðum flugvöllum í umsjón Isavia um allt land.
Flugradíómaður ber ábyrgð á að veita örugga og skilvirka flugupplýsingaþjónustu við flugvelli, gerð og dreifingu veðurathuganna auk viðbúnaðarþjónustu. Hann er ábyrgur gagnvart þeirri umferð sem tilheyrir hans vinnustöðu og vinnur samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum.
Til þess að hefja nám í flugupplýsingaþjónustu og fá hæfnismat sem flugradíómaður þarf viðkomandi að hafa sótt um starf sem slíkur að undangenginni atvinnuauglýsingu.
Inntökuskilyrði:
- Að umsækjandi tali og riti gott íslenskt mál
- Að umsækjandi sé lipur í mannlegum samskiptum
- Að umsækjandi sé fær um að skilja og tala ensku
AFIS grunnnámskeið samanstendur af:
- Fjarnámi þar sem farið er yfir fjölmörg atriði þ.á.m :
- Starf og ábyrgð flugradíómanna
- Almennt um starfsemi Isavia
- Almennt um stjórnunarkerfi og SMS Isavia
- Um flugleiðsögutæki flugvalla
- Bóklegu námi, 1 vika
- Verklegu námi, 1 vika
- Starfsþjálfun á vinnustað
- Vettvangsferðum til starfsstöðva sem tengjast starfsemi Isavia
Að loknu námi hjá Þjálfun Isavia ANS, starfsþjálfun á viðkomandi flugvelli og hæfnismati er flugradíómaður tilbúinn til starfa við flugupplýsingaþjónustu á viðkomandi flugvelli.
Flugrekstur

Auk flugprófunarverkefna er farið í reglubundið mælingaflug fyrir Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands/ Almannavarnir við vöktun á eldstöðvunum í Öræfajökli, Bárðarbungu og Kötlu. Vélin okkar er sérútbúin til þess að sinna þessum verkefnum.
Flugrekstur Isavia ANS rekur flugvél fyrirtækisins TF-FMS sem er skrúfuþota af gerðinni Beechcraft King Air B200 árgerð 1985. Vélin er fyrst og fremst notuð til reglubundinna flugprófana á hefðbundnum flugleiðsögubúnaði og til prófunar og fullgildingar á nýrri flugferlahönnun.

Dótturfélög

Suluk APS
Suluk er grænlenskt einkahlutafélag í eigu Isavia ANS. Starfsmenn félagsins eru flugumferðarstjórar sem veita, ásamt flugumferðarstjórum frá Isavia ANS, aðflugs- og turnþjónustu á Kangerlussuaqflugvelli. Samningur er um þessa þjónustu milli Isavia ANS og grænlenska flugvallafyrirtækisins Mittarfeqarfiit.
Tern Systems
Tern System ehf. þróar og framleiðir hugbúnað fyrir flugleiðsöguþjónustu. Um er að ræða lausnir sem notaðar eru í rekstri flugstjórnarmiðstöðva, flugturna og við þjálfun flugumferðarstjóra.
Kerfi frá Tern Systems eru meðal annars notuð á Íslandi, Írlandi, Suður-Kóreu, Spáni, Marokkó og Indónesíu. Starfsmenn eru um 50 í aðalstöðvum félagsins á Íslandi.
Fjárhagsupplýsingar

Isavia ANS ehf. annast flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi yfir norðanverðu Norður Atlantshafi. Kostnaður við flugleiðsögu utan flugvalla, þ.e. aðflugsþjónustu og leiðarflugsþjónustu, er innifalinn í kostnaðargrunni flugleiðsögugjalda.