Til þess að hefja nám í flugumferðarstjórn þurfa einstaklingar:
- Að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.
- Æskilegast er að umsækjendur séu á aldrinum 18 – 35 ára.
- Tala og rita mjög góða íslensku og ensku. Viðkomandi þarf að ná að lágmarki CEFRL stigi B2.
- Að vera góðir í mannlegum samskiptum og starfa í hópi.
- Að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og eiga gott með að taka ákvarðanir.
- Að standast læknisskoðun og skimun fyrir geðvirk efni skv. reglugerðarkröfum um flugumferðarstjóra.
- Með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini og einkunnum úr námi.
Með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini og einkunnum úr námi.
Nám hjá Isavia ANS í flugumferðarstjórn er frábrugðið flestu námi. Námið skiptist í þrjá hluta; grunnnám, áritunarnám og starfsþjálfun og stífar kröfur eru gerðar um námsárangur í hverjum hluta.
Grunnnám er kennt í staðnámi og stendur yfir í um 25-30 vikur. Grunnnámið skiptist í undirstöðu-og réttindaþjálfun sem eru bókleg og verkleg kennsla sem samanstendur af námskeiðum um flugleiðsögu, veðurfræði, flugleiðsögukerfi, flugvélar, mannþáttafræði, lög flugleiðsögu, vinnuumhverfi flugumferðarstjóra og fleira.
Að loknu grunnnámi hefst áritunarnám. Áritunarnámið er kennt í staðnámi og samanstendur af fyrirlestrum og æfingum í flugstjórnarhermi. Einhver munur er á lengd námsins eftir því á hvaða starfsstöð viðkomandi er valinn á.
Deildarþjálfun samanstendur af bóklegri og verklegri kennslu hjá Þjálfun og í framhaldi af því starfsþjálfun á starfsstöð. Starfsþjálfunin er einstaklingsmiðuð og er lágmarks og hámarkstími tilgreindur í þjálfunaráætlun, en ætla má að heildarnámstími til réttinda se u.þ.b 2 ár. Í starfsþjálfun fer nemi inn á vaktir og starfar undir handleiðslu flugumferðarstjóra. Í starfsþjálfun þarf nemi að uppfylla ákveðin framfaramöt reglulega sem hluta af námi sínu. Á meðan nemi er í starfsþjálfun fær hann greiddan mánaðarlegan námsstyrk. Isavia ANS innheimtir engin skólagjöld.