Starfsemin

Flugfjarskipti

Fjarskipti við flugvélar á ferð yfir Norður-Atlantshaf er mikilvægur hluti af þjónustu Isavia ANS. Fyrirtækið tryggir örugg og skilvirk samskipti fyrir viðskiptavini okkar í gegnum flugfjarskiptastöðina Gufunes (Iceland Radio).

Fjarskiptastöðin Iceland Radio er staðsett í Grafarvogi í Reykjavík

Meginsvið starfseminnar

Starfsemi fjarskiptastöðvarinnar í Gufunesi skiptist í tvö megin svið:

  1. Talviðskipti við flugvélar (Aeronautical Mobile Service - AMS)
  2. Rekstur á AFTN/AMHS skeytarofa (Aeronautical Fixed Sercvice - AFS).

Sá hluti starfsemi fjarskiptastöðvarinnar sem snýr að talviðskiptum við flug er miklu stærri og krefst meiri mannafla. Í úthafsflugumferðarstjórn sjá fjarskiptastöðvarnar um talviðskipti við flugmenn nema þegar flugvélin er undir kögunar (ratsjár/ADS-B) flugumferðarstjórn. Fjarskiptamaðurinn tekur við skeytum frá flugumferðarstjóra og kemur þeim til skila til viðkomandi flugvélar og öfugt.

Algengar þjónustur

Algengu þjónusturnar eru:

  • Tilkynningar um stöðumið frá flugvélum
  • Óskir um breytingar á flughæðum eða flugleiðum frá flugmönnum
  • Afgreiðsla flugheimilda frá flugstjórnarmiðstöðinni
  • Veðurupplýsingar til og frá flugmönnum
  • Upplýsingar til aðgerðastjórnstöðva flugrekenda

Frá fjarskiptastöðinni í Gufunesi er veitt þjónusta allan sólarhringinn á HF og VHF GP tíðnum. Í stöðinni eru alls átta fjarskiptaborð til að sinna flugfjarskiptum.

VHF þjónustan er samfelld yfir Atlantshafið, búnaður er staðsettur í Færeyjum, Íslandi og á Grænlandi. Unnið er á 126.550 og 127.850.