Starfsemin

Flugfjarskipti

Fjarskipti við flugvélar á ferð yfir Norður-Atlantshaf er mikilvægur hluti af þjónustu Isavia ANS. Fyrirtækið tryggir örugg og skilvirk samskipti fyrir viðskiptavini okkar í gegnum flugfjarskiptastöðina Gufunes (Iceland Radio).

Fjarskiptastöðin Iceland Radio er staðsett í Grafarvogi í Reykjavík

Meginsvið starfseminnar

Fjarskiptastöðin í Gufunesi heldur uppi talfjarskiptum á stuttbylgju og á metrabylgju í náinni samvinnu við fjarskiptastöðina í Ballygirreen á Írlandi. Fjarskiptin fara fram á ensku og felast í móttöku og sendingu á skeytum er varða öryggi flugsins svo sem staðarákvarðanir, margvíslegar flughæða-, hraða- og flugleiðabreytingar, veðurskeyti, upplýsingar um lendingarskilyrði á flugvöllum og því um líkt. Skeytum frá flugvélum er dreift eftir atvikum til flugstjórnarmiðstöðva, veðurstofu og flugrekenda.

Starfsemi fjarskiptastöðvarinnar í Gufunesi skiptist í tvö megin svið:

  1. Talviðskipti við flugvélar (Aeronautical Mobile Service - AMS)
  2. Rekstur á AFTN/AMHS skeytarofa (Aeronautical Fixed Sercvice - AFS).

Sá hluti starfsemi fjarskiptastöðvarinnar sem snýr að talviðskiptum við flug er miklu stærri og krefst meiri mannafla. Í úthafsflugumferðarstjórn sjá fjarskiptastöðvarnar um talviðskipti við flugmenn nema þegar flugvélin er undir kögunar (ratsjár/ADS-B) flugumferðarstjórn. Fjarskiptamaðurinn tekur við skeytum frá flugumferðarstjóra og kemur þeim til skila til viðkomandi flugvélar og öfugt.

Algengar þjónustur

Algengu þjónusturnar eru:

  • Tilkynningar um stöðumið frá flugvélum
  • Óskir um breytingar á flughæðum eða flugleiðum frá flugmönnum
  • Afgreiðsla flugheimilda frá flugstjórnarmiðstöðinni
  • Veðurupplýsingar til og frá flugmönnum
  • Upplýsingar til aðgerðastjórnstöðva flugrekenda

Frá fjarskiptastöðinni í Gufunesi er veitt þjónusta allan sólarhringinn á HF og VHF GP tíðnum. Í stöðinni eru alls átta fjarskiptaborð til að sinna flugfjarskiptum. Einnig sinnir fjarskiptastöðin þjónustu í írska flugstjórnarsvæðinu í samvinnu við fjarskiptastöðina Ballygirren á Írlandi.

VHF þjónustan er samfelld yfir Atlantshafið, búnaður er staðsettur í Færeyjum, Íslandi og á Grænlandi. Unnið er á VHF 126.550 og VHF 127.850.

HF þjónustan er veitt á þremur tíðnifjölskyldum:


Í samvinnu við bandaríska fjarskiptafyrirtækið ARINC er rekinn frá Gufunesi búnaður til gagnafjarskipta við flugvélar bæði á HF og VHF tíðnum. Í Grindavík eru HF sendar til þessarar notkunar og viðtæki í Þverholtum. Búnaður til gagnafjarskipta á VHF tíðnum er staðsettur á Háfelli og Þorbirni á Íslandi, á Spáafelli í Færeyjum og á þremur stöðum í Grænlandi, DYE One, DYE Four og TOP775. Með þessum staðsetningum næst belti með samfelldu þjónustusvæði yfir Norður-Atlantshaf á VHF tíðnum en utan þess er HF þjónusta. Gagnafjarskipti við flugvélar eru stöðugt að aukast, bæði þar sem flugfélög nálgast gögn frá eigin flugvélum og einnig eru samskipti milli flugvéla og flugstjórnarmiðstöðva að færast yfir á gagnaviðskipti í auknum mæli.