Langar þig að læra að stjórna flugumferð?

Isavia ANS annast rekstur íslensku flugleiðsöguþjónustunnar og er stærsti starfsvettvangur flugumferðarstjóra á Íslandi. Flugumferðarstjórar stýra flugumferð á flugvöllum á Íslandi og í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem er eitt það stærsta í heiminum.

Isavia ANS hefur langa reynslu af þjálfun og menntun flugumferðarstjóra og er áætlað að þjálfa þurfi 6-8 nýja flugumferðarstjóra árlega.

Til þess að hefja nám í flugumferðarstjórn þurfa einstaklingar:

  • Að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.
  • Æskilegast er að umsækjendur séu á aldrinum 18 – 35 ára.
  • Tala og rita mjög góða íslensku og ensku. Viðkomandi þarf að ná að lágmarki CEFRL stigi B2.
  • Að vera góðir í mannlegum samskiptum og starfa í hópi.
  • Að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og eiga gott með að taka ákvarðanir.
  • Að standast læknisskoðun og skimun fyrir geðvirk efni skv. reglugerðarkröfum um flugumferðarstjóra.

Með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini og einkunnum úr námi.

Hæfir umsækjendur verða boðaðir í inntökupróf. Vakin er athygli á því að reglum um inntökupróf hjá Isavia ANS hefur verið breytt. Eingöngu má sitja inntökupróf fyrir nám í flugumferðarstjórn þrisvar Þeir sem hafa sótt um þrisvar eða oftar verður þó leyft að sækja um í ár.

Nemar greiða ekki skólagjöld og fá mánaðarlegan námsstyrk þegar seinni hluti námsins (starfsþjálfun) hefst.

Sækja um nám í flugumferðarstjórn

Nám hjá Isavia ANS í flugumferðarstjórn er frábrugðið flestu námi. Námið skiptist í þrjá hluta; grunnnám, áritunarnám og starfsþjálfun og stífar kröfur eru gerðar um námsárangur í hverjum hluta.

Grunnnám er kennt í staðnámi, byrjar að hausti og lýkur í desember. Grunnnámið samanstendur af námskeiðum um flugleiðsögu, veðurfræði, flugleiðsögukerfi, flugvélar, mannþáttafræði, lög flugleiðsögu, vinnuumhverfi flugumferðarstjóra og fleira.

Áritunarnám hefst í janúar. Áritunarnámið er kennt í dagskóla (8-16) þar sem nemar eru í fyrirlestrum, æfingum og vinnu í flugstjórnarhermi. Einhver munur er á lengd námsins eftir því á hvaða starfsstöð viðkomandi er valinn á.

Starfsþjálfun getur verið mismunandi lengi eftir því hvernig nema gengur en áætlað er að nemar séu að ljúka náminu á um 2 árum. Í starfsþjálfun fer nemi inn á vaktir og starfar undir handleiðslu flugumferðarstjóra. Í starfsþjálfun þarf nemi að uppfylla ákveðin framfaramöt reglulega sem hluta af námi sínu. Á meðan nemi er í starfsþjálfun fær hann greiddan mánaðarlegan námsstyrk.