
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, voru fyrstu farþegarnir og flogið var með þau sitt í hvoru lagi og þar með stigin mikilvæg skref í orkuskiptum flugsamgangna.
Flugvélin sem ber skráninguna TF-KWH er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel og er framleidd í Slóveníu. Hún er á stærð við þær vélar sem notaðar eru í flugkennslu hér á landi og er fyrsta rafdrifna flugvélin sem fær flughæfiskírteini á Íslandi.
Félagið Rafmagnsflug ehf. flutti rafmagnsflugvélina til landsins með það að markmiði að taka frumkvæði í orkuskiptum í flugi, þjálfa starfsfólk í þessari nýju tækni og kynna hana fyrir landsmönnum. Rafmagnsflug ehf. var stofnað af Matthíasi Sveinbjörnssyni og Friðriki Pálssyni í árslok 2021 en þeir hafa unnið að því síðastliðin þrjú ár að fá rafmagnsflugvélina til landsins.


