Til baka

Áhrif mögulegs verkfalls flugumferðarstjóra

Komi til verkfalls flugumferðarstjóra sem stýra flugumferð í FAXI aðflugsstjórnarsvæðinu verður ekki hægt að fljúga í áætlunarflugi um Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll að morgni þriðjudagsins 12. desember milli kl. 04:00 og 10:00 annars vegar og að morgni fimmtudagsins 14. desember milli kl. 04:00 og 10:00 hins vegar. Undanþágur verða veittar fyrir leitar- og björgunarflug, sjúkraflug og flug á vegum Landhelgisgæslunnar.

Farþegar sem eiga flug til eða frá þessum tveimur völlum á þessu tímabili eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá sínum flugfélögum eða kanna flugáætlun á vef Keflavíkurflugvallar og vef Reykjavíkurflugvallar.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Samtök Atvinnulífsins (SA) fyrir hönd Isavia ANS, Isavia ohf., og Isavia Innanlandsflugvalla, standa nú í kjaraviðræðum og hefur þeim verið vísað til embættis Ríkissáttasemjara. Næsti fundur er boðaður síðar í dag.