Til baka

Jafnrétti í flugi

Jafnrétti í flugi

Ísland og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gengið lengra en flesta önnur lönd hvað varðar jafnrétti kynjanna og jöfn tækifæri til starfa fyrir karla og konur. Jafnrétti er bundið í lög á Íslandi með það að markmiði að ná til allra starfsgreina í samfélaginu og fluggeirinn er þar engin undantekning.

Árið 1984, þegar allir íslenskir flugumferðarstjórar voru karlmenn, útskrifaðist ung kona sem flugumferðarstjóri í turninum á Reykjavíkurflugvelli, sú fyrsta af mörgum sem áttu eftir að koma. Á þessum tíma voru fyrstu kvenflugmennirnir að ráða sig til starfa hjá Icelandair [ÞS1] og fyrsta konan sem fluggagnafræðingur hóf störf í flugstjórnarmiðstöðinni. Það virðist ekki svo langt síðan, en þessar konur voru brautryðjendur í mikilvægum skrefum í átt að jafnrétti í flugi. Það var eins og flóðgáttir hefðu opnast og árin á eftir voru konur í auknu mæli ráðnar sem flugumferðarstjórar, fluggagnafræðingar og flugmenn, fyrst smám saman og síðar í vaxandi mæli, á jöfnum kjörum við karla.

Isavia ANS, fyrirtæki í flugleiðsöguþjónustu á Íslandi (hér eftir ANS), hefur tekið upp jafnréttisáætlun/stefnu þróaða í samræmi við jafnréttislög ásamt móðurfélagi sínu, Isavia. Tilgangur þessarar stefnu er að tryggja fullt jafnrétti karla og kvenna á vinnustaðnum og að nýta að fullu sameiginlega hæfni, styrkleika og þekkingu beggja kynja. Allar auglýsingar um störf hvetja jafnt konur sem karla til að sækja um, og félagið skuldbindur sig til að greiða starfsmönnum sömu laun fyrir sambærileg störf, sem endurspeglast í því að Isavia hefur hlotið „Jafnlaunavottun“ síðustu þrjú ár í röð (sjá: Stjórnarráðið | Jafnlaunavottun (stjornarradid.is)).

Ár hvert er hlutfallið milli karla og kvenna hjá ANS skoðað með það að markmiði að auka vitund stjórnenda um kynjahlutfallið í fyrirtækinu. Vegna sögulegra ástæðna er fylgst náið með hlutfalli kynjanna innan stétta flugumferðarstjóra og fluggagnafræðinga.

Tölur frá tímabilinu 2008 - 2021 sýna að ákveðinn toppur hefur náðst í hlutfalli karla og kvenna meðal flugumferðarstjóra, þar sem konur eru um það bil 30%. Hlutfallið er öðruvísi hjá fluggagnafræðingum þar sem konur hafa náð meirihluta, eða 60%.

Við endurskoðun talna frá liðnum árum er ljóst að enn er verk að vinna þrátt fyrir gildandi löggjöf og markmið. Áskorun næstu árin er að efla og auglýsa starfsgrein flugumferðarstjóra fyrir konur og halda áfram að fylgjast með öðrum störfum eins og fluggagnafræði til að tryggja að þau störf verði ekki einsleit hvað varðar kynjahlutfall.

Jafnframt því að hlutfall milli karla og kvenna hefur færst í átt að jafnvægi meðal flugumferðarstjóra og fluggagnafræðinga á Íslandi, þá á það einnig við um stjórnunarstöður í flugrekstri. Hjá ANS gegna konur hinum ýmsu stjórnunarstöðum eins og til dæmis stöðum sem stjórnendur flugferla, öryggis- og gæðamála, atvikarannsókna, fjármála og mannauðs.

Þessar staðreyndir benda til þess að kynjajafnrétti í flugiðnaði á Íslandi sé að ná jafnvægi sem gerir iðnaðinn minna meðvitaðan um hvort vinnuveitendur, stjórnendur og framkvæmdastjórar séu karlar eða konur. Tölurnar eru einnig í samræmi við niðurstöður Alþjóðaefnahagsráðsins, Global Gender Gap Report 2021, þar sem fram kemur að hvergi í heiminum er meiri jöfnuður milli kynjanna en á Íslandi og hefur Ísland verið efst þegar kemur að kynjajafnrétti s.l. 12 ár.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun og hversu stolt við erum af árangri flugiðnaðarins á Íslandi í kynjajafnrétti, er stöðugt eftirlit og skoðun enn nauðsynleg. Stjórnendur fyrirtækja eru meðvitaðir um mikilvægi kynjajafnréttis og einbeita sér að því að missa ekki það sem þegar hefur áunnist. Jafnvægi milli kynja er talið hornsteinn sterks og blómlegs rekstrar og er hluti af stefnumótandi stjórnun þar sem jafnrétti er talið einn af lykilþáttum fyrir jákvæðan efnahags- og umhverfisárangur og framtíðarvöxt.

Höfundur:

Þórdís Sigurðardóttir
Flugumferðarstjóri og sviðsstjóri rekstrarsviðs hjá Isavia ANS