Fyrstu vikuna í september hélt Flugprófanadeild Isavia ANS í eina af þremur árlegum ferðum sínum til Grænlands. Ferðir sem þessar eru stór hluti af mikilvægu hlutverki deildarinnar við að tryggja að flugleiðsögubúnaður og aðstaða á flugvöllum séu í fullkomnu lagi og standist allar alþjóðlegar kröfur.
Að þessu sinni fengu verkefnin aukna athygli, því með í för voru sjónvarpsmaðurinn Kristján Már Unnarsson og tökumaðurinn Egill Aðalsteinsson sem söfnuðu efni fyrir nýjustu seríu af sjónvarpsþáttunum Flugþjóðin. Í væntanlegum þáttum verður meðal annars fjallað ítarlega um flugprófanir og mikilvægi þeirra fyrir flugöryggi á norðurslóðum.

Flugmenn ferðarinnar voru þeir Þórður Pálsson og Trausti Magnússon, ásamt tæknimanni flugprófana Gunnari Þórðarsyni. Ferðin náði til Kulusuk, Narsarsuaq, Paamiut, Nuuk og Kangerlussuaq, þar sem fram fóru reglubundnar prófanir á flugleiðsögubúnaði. Einnig voru framkvæmdar fyrstu prófanir á nýjum DME- og VHF-búnaði í Qaarsut.

Ferðin gekk afar vel og veðrið lék við mannskapinn. Ljósmyndarar og tökumenn komu heim með fullt af mögnuðu myndefni, meðal annars má sjá þar „low pass“ flug KING2 yfir nýju 22 brautina í Nuuk og óvænta heimsókn frá haferni sem heilsaði teymi okkar á meðan á vinnu stóð.