Flugfjarskipti Isavia hafa fengið ISO14001-vottun frá BSI, Bresku staðlastofnuninni. Þessi nýja vottun staðfestir að á starfsstöðinni er starfrækt virkt umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO14001-staðlinum. Flugfjarskipti eru fyrsta starfsstöð Isavia til að fá slíka vottun.
Fjarskipti við flugvélar á ferð yfir Norður-Atlantshafið eru mikilvægur hluti af þeirri þjónustu sem Isavia veitir. Fjarskiptastöðin í Gufunesi heldur uppi talfjarskiptum á stutt- og metrabylgju í samvinnu við fjarskiptastöðina í Ballygirreen á Írlandi. Starfsemin felst í móttöku og sendingu á skeytum sem varða öryggi flugsins, þar á meðal eru staðarákvarðanir, flughæða-, hraða- og flugleiðabreytingar, veðurskeyti, upplýsingar um lendingarskilyrði á flugvöllum og annað slíkt.
Markmið umhverfisstjórnunarkerfisins er að hafa eftirlit með og stýra þeim umhverfisáhrifum sem verða af starfseminni. Auk þess er unnið markvisst að því að minnka áhrifin. Sett eru metnaðarfull markmið í þeim efnum og unnið að stöðugum umbótum og eftirfylgni með þeim.
Markmiðin tengjast umhverfisstefnu Isavia, markmiðum Isavia í tengslum við loftslagssáttmála Reykjavíkurborgar og Festu, ásamt öðrum markmiðum fyrirtækisins í umhverfismálum.
Flugfjarskipti hefur einnig lokið fimm grænum skrefum af verkefni Umhverfisstofnunar. Þar hafi starfsstöðin gengið á undan með góðu fordæmi:
- Ríflega 60% alls sorps frá starfseminni fer í endurvinnslu.
- Úrgangur er flokkaður í sjö mismunandi flokka.
- Meirihluti alls lífræns sorps fer í að fóðra hænur starfsstöðvarinnar eða í moltugerð.
- Notkun á heitu og köldu vatni er vöktuð.
- Eldsneytisnotkun er lágmörkuð eins og hægt er með stöðugri vöktun.
- Innkaupastefna er vel skilgreind þannig að keyptar eru inn umhverfisvottaðar vörur ásamt „fair trade“ vörum þar sem það er hægt.
- Einnota borðbúnaður, eins og t.d. drykkjarmál, er ekki í notkun.