Um okkur

Sjálfbærni

Hænurnar á starfstöð flugfjarskipta

Samþykkt var ný sjálfbærnistefna fyrir Isavia ohf og dótturfélög í lok árs 2021. Stefnunni er ætlað að leysa af hólmi tvær eldri stefnur, annars vegar umhverfisstefnu og hins vegar stefnu í samfélagsábyrgð. Með setningu stefnunnar uppfylla félagið og dótturfélög þess lagakröfur um setningu loftslagsstefnu.

Sjálfbærnistefnan byggir á þremur meginstoðum sjálfbærni: umhverfi, samfélagi og efnahag. Í hverjum flokki eru sett fram stefnumið og þeim fylgir svo ítarleg aðgerðaáætlun fyrir hvert félag fyrir sig. Lögð er áhersla á lækkun kolefnisspors, hringrásarhagkerfi, samvinnu við nærsamfélag og viðskiptafélaga, virðissköpun, framþróun, nýsköpun og stöðugar umbætur, svo fátt eitt sé nefnt.

Isavia ANS er aðili að Borealis Alliance sem eru samtök níu flugleiðsöguveitenda (ANSP) í Norður-Evrópu. Þar er unnið að Free Route Airspace verkefni sem á að leiða af sér styttri flugtíma. Það leiðir aftur af sér minni eldsneytisnotkun sem þýðir lægri kostnað og minni mengun. Á Íslandi geta flugrekendur nú áætlað og flogið beina flugleggi frá Keflavíkurflugvelli til flugvalla í Noregi og Skotlandi, sem eru næstu flugstjórnarsvæðin í suðaustri við það íslenska.

Isavia ANS hefur verið þátttakandi í Grænum skrefum síðan 2016 og hefur Flugstjórnarmiðstöðin tekið 2 slík skref og starfsemi Flugfjarskipta í Gufunesi öll fimm skrefin.

Starfsemin er með ISO14001 vottun og varð fyrsta starfsstöð Isavia til þess að hljóta slíka vottun. Í Gufunesi hafa verið farnar óhefðbundnar leiðir í því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni, meðal annars með því að koma fyrir hænsnakofa á lóð starfstöðvarinnar. Hænurnar borða hluta af þeim matarafgöngum sem falla til í starfseminni og þar með minnkar það magn sem annars færi til urðunar eða moltugerðar. Starfsemin í Gufunesi er til fyrirmyndar í umhverfismálum og er svo dæmi sé nefnt með hæsta flokkunarhlutfall sorps í allri samstæðunni.