Eldgos er hafið á Reykjanesskaga - Helstu upplýsingar um eldgos á svæðinu má nálgast á vef Veðurstofu Íslands og vef Almannavarna.

Svæðið

Íslenska flugstjórnarsvæðið — Reykjavik CTA

Isavia ANS sér um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu fyrir hönd Íslands í íslenska flugstjórnarsvæðinu en einnig í efra loftrými grænlenska flugstjórnarsvæðisins.

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir Norður-Atlantshafi. Þessi lönd eru Bretland, Ísland, Kanada, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Portúgal.

Íslenska flugstjórnarsvæðið ber alþjóðlegu skammstöfunina BIRD. BIRD ásamt efra loftrými grænlenska flugstjórnarsvæðisins ber heitið "Reykjavik Control Area" sem nær yfir svæði frá 61°N að Norðurpólnum, frá 76°W að 30°E. Neðri mörk stjórnaða svæðisins eru breytileg, allt frá jörðu og að 20.000 fetum yfir sjávarmáli þar sem þau eru hæst, en efri hæðarmörk eru engin.

Um þriðjungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið sem er í umsjá Isavia ANS.

Til stjórnunar flugumferðar í svæðinu eru notuð kögunargögn frá ratsjárstöðvum og svokölluðum ADS-B stöðvum sem staðsettar eru víðsvegar um Ísland, við Sumburgh í Skotlandi (SUM), á tveimur stöðum í Færeyjum (FAE) og fimm stöðum á Suður-Grænlandi. Einnig er notast við geimkögun (Space-based ADS-B), þannig að kögunardrægi nær yfir allt Ísland, suðurhluta Grænlands og austur fyrir Færeyjar, allt norður að 70°N.

Flugumferðarþjónustu á flugvöllum má skipta í tvo flokka, annars vegar flugstjórnarþjónustu (flugturnsþjónusta og aðflugsstjórnarþjónusta) og hins vegar flugupplýsingaþjónustu. Á Keflavíkur-, Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli er veitt flugstjórnarþjónusta, en á öðrum áætlunarflugvöllum er veitt flugupplýsingaþjónusta.

Aðliggjandi svæði

Aðliggjandi svæði eru: Skosku svæðin Shanwick (EGGX) og Prestwick (EGPX), kanadísku svæðin Gander (CZQX) og Edmonton (CZEG), rússneska svæðið St. Petersburg (ULLL) og norsku svæðin Bodö (ENOB) og Norway (ENOR).

Helstu flugvellir í svæðinu

Helstu flugvellir í svæðinu eru í Keflavík, Reykjavík, Akureyri, Vågar í Færeyjum, Kangerlussuaq og Thule á Grænlandi.