Eldgos á Reykjanesskaga – að svo stöddu hafa eldsumbrotin ekki áhrif á flugumferð. Nánari upplýsingar á vef Almannavarna og á vef Veðurstofunnar.

Til baka

Flugprófanir á Grænlandi

Flugprófanadeild Isavia ANS fór dagana 18. til 22. júní í sumartúr til Grænlands, þar sem mikilvægar flugprófanir voru framkvæmdar á öllum flugvöllum á vesturströnd Grænlands, norðan Nuuk (fyrir utan Thule). Sumartúrinn, sem er einn af þremur árlegum flugprófunarferðum deildarinnar til Grænlands, náði til flugvallanna í Qaanaaq, Upernavik, Ilulissat, Sisimiut, Qarsut, Maniitsoq og Aasiaat.

Áhöfnin í þessari ferð samanstóð af flugstjóranum Snæbirni Guðbjörnssyni, flugmanninum Trausta Magnússyni og tæknimanninum Gunnari Þórðarsyni.

Sumartúrinn fer alltaf fram í 25. viku ársins og er markmið ferðarinnar að tryggja áreiðanleika og nákvæmni mikilvægra innviða, svo sem PAPI ljósa, DME kerfa og NDB vita.

Einn af hápunktum ferðarinnar var heimsókn til Qaanaaq, þorps sem er staðsett á 77. breiddargráðu. Qaanaaq er ekki aðeins nyrsta byggð Grænlands heldur einnig eitt nyrsta byggðarsvæði heims og þar búa rúmlega 600 manns. Aðstæður á þessum afskekkta stað undirstrika mikilvægi þessara prófana til að tryggja öryggi og áreiðanleika í flugi.

Í þessari viku flaug áhöfnin 9.117 kílómetra á rétt tæpum 43 flugtímum.

Það er einnig gaman að geta þess að Örnólfur Lárusson, Deildarstjóri Flugprófanadeildar, mun leggja af stað í sína 73. ferð í september. Með yfir 25 ára starfsferil hjá Isavia, þar af stóran hluta á Grænlandi, er reynsla hans einstök.

Meðfylgjandi myndband var tekið upp í ferðinni og snilldarlega unnin af Jóni Margeiri Þórissyni hjá CNS kerfum.