Til baka

Rafrænar flugáætlanir

Breyting á innlögn sjónflugsáætlana hefur nú tekið gildi, en frá og með deginum í dag er gert ráð fyrir að flugáætlanir séu lagðar inn rafrænt. Nú hefur einnig verið felld úr gildi undanþága Samgöngustofu um móttöku á styttri flugáætlunum og ekki verður tekið við flugáætlunum á tölvupósti né í síma í turnum og hjá AFIS.

Farið var í þetta verkefni af ýmsum ástæðum, en mikilvægt er að sjónflugsáætlanir séu til í kerfi þar sem þær eru geymdar miðlægt á einum stað, bæði til að tryggja öryggi upplýsinga en líka til þess að minnka álag vegna símtala, sérstaklega í Turnum.

Samgöngustofa, eftirlitsaðili Isavia, gaf árið 2013 út frávik á félagið vegna þess að Isavia hafði ekki tök á að taka við fullum áætlunum. Isavia fékk þetta frávik fellt niður og um leið leyfi til að taka við styttum flugáætlunum á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli á meðan unnið var að því að koma okkur upp kerfi til þess að taka við flugáætlunum í samræmi við reglugerð. Þá var þegar hafin vinna við leit rafrænna lausna varðandi móttöku og dreifingu þeirra.

Ástæða þess að kerfi Cronos varð fyrir valinu er sú að auk þess að geta tekið við rafrænum flugáætlunum þá býður kerfið einnig upp á flugáætlanavinnslu og forflugsupplýsingar sem og vinnslu NOTAM og SNOWTAM skeyta. Einnig er Cronos það kerfi sem notað er í nágrannalöndum okkar.

Hægt er að leggja inn rafrænar flugáætlanir í gegnum heimasíðu Isavia ANS en þar má einnig finna leiðbeiningar og leiðbeiningamyndbönd um innlögn flugáætlana.

Til þess að koma til móts við alla verður enn hægt að leggja inn flugáætlanir í miðlægt símanúmer - 424 4242.

Flugmenn geta sent inn rafræna flugáætlun í gegnum öll forrit sem notast við AFTN og er ýmislegt í boði þar. Vefgátt Cronos er aftur á móti flugmönnum að kostnaðarlausu.