Hvað er til ráða?
Evrópska flugöryggisstofnunin (EASA) hefur gefið út öryggisábendingu vegna GNSS truflana (https://ad.easa.europa.eu/ad/2022-02R2). Í skjalinu eru lagðar fram tillögur fyrir flugmálayfirvöld, veitendur flugleiðsöguþjónustu, flugrekendur og framleiðendur flugvéla og tækjabúnaðar. Tillögur sem snúa að veitendum flugleiðsöguþjónustu eru:
· Safna upplýsingum um GNSS truflanir.
· Meta áhrif truflana á samskipta-, flugleiðsögu- og kögunarkerfi.
· Gefa út sérstakar tilkynningar (NOTAM) þegar við á.
· Tryggja gott kögunardrægi og flugleiðsögubúnað sem er óháður GNSS. T.d. ratsjár, ILS, VOR og DME.
· Tryggja að viðbragðsáætlanir taki mið af mögulegum GNSS truflunum.
· Fylgjast vel með staðsetningu flugvéla til að greina frávik.
Tveir fulltrúar Isavia ANS tóku þátt í ráðstefnu í Tyrklandi í byrjun febrúar 2024 þar sem ýmsir hagaðilar víðs vegar úr heiminum komu saman og deildu reynslu af GNSS truflunum. Þar lýstu flugmenn t.d. reynslu sinni af GNSS truflunum og hvernig þær lýsa sér í flugstjórnarklefanum. Einnig kom fram hjá fulltrúa flugfélags frá Miðausturlöndum að yfir 100 tilfelli séu skráð hjá þeim daglega þar sem flugvélar hafa orðið fyrir GNSS truflunum.
Isavia ANS leggur mikla áherslu á að taka þessi mál föstum tökum og tryggja öryggi loftfara. Áfram verður fylgst vel með þessum málum og verði GNSS truflana vart í íslenska flugstjórnarsvæðinu verða gefnar út viðeigandi viðvaranir.