Eldgos á Reykjanesskaga – að svo stöddu hafa eldsumbrotin ekki áhrif á flugumferð. Nánari upplýsingar á vef Almannavarna og á vef Veðurstofunnar.

Til baka

75 ára afmæli alþjóðaflugleiðsögu á Íslandi

Minnismerki afhjúpað um 75 ár í alþjóðaflugleiðsöguþjónustu

Í ár eru liðin 75 ár frá því að Alþjóðaflugmálastofnunin - ICAO og Ísland gerðu með sér samstarfssamning um alþjóðaflugþjónustu.

Isavia ANS annast flugleiðsögu- og flugumferðarþjónustu í innanlands- og alþjóðarflugi yfir norðanvert Atlantshafið. Íslenska flugstjórnarsvæðið er með stærri flugstjórnarsvæðum heims en það nær yfir 5,4 milljón ferkílómetra svæði. Flugstjórnarsvæðið nær frá Greenwich-lengdarbaugnum í austri og vestur fyrir Grænland, frá Norðurpólnum, suður fyrir Færeyjar og langleiðina til Skotlands. Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið.

Í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá gerð samningsins og að nefnd sú hjá ICAO sem starfrækir samning Íslands við stofnunina er stödd á landinu, var haldin athöfn í dag þann 18. október í höfuðstöðvum Isavia ANS í flugstjórnarmiðstöðinni við Nauthólsveg.

Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS, bauð gesti velkomna auk þess sem Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, ávarpaði gesti. Ásgeir Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Isavia ANS, fór yfir sögu samstarfsins við ICAO og fjárhagsnefndar stofnunarinnar, þ.e. Joint Support Committee.

Christian Schleifer, stjórnarformaður JSC, ávarpaði fundinn og afhjúpaði síðan ásamt Kjartani minnismerki um samstarfið síðustu 75 árin.