Meginsvið starfseminnar
Fjarskiptastöðin veitir talþjónustu á stuttbylgjum og metrabylgjum í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Fjarskiptin fara fram á ensku og felast í því að senda og taka við skeytum til að tryggja öryggi flugvéla á leið sinni yfir Norður Atlantshafið. Fjarskiptamenn bera á milli staðarákvarðanir flugvéla, hæða-, hraða- og leiðabreytingar, veðurskeyti, upplýsingar um lendingarskilyrði flugvalla, neyðarboð frá flugvélum, upplýsingar til og frá flugrekendum, ásamt því að veita talsamskipti við flugumsjón flugfélaga ofl. Skeytum frá flugvélum er dreift eftir atvikum til flugstjórnarmiðstöðva, veðurstofu, flugvalla og flugrekenda. Hlutverk Fjarskiptamanna er að tryggja stöðugt fjarskiptasamband við flugvélar og úthluta viðeigandi fjarskiptatíðnum hverju sinni.
Árið 2006 hóf fjarskiptastöðin Iceland Radio samstarf við fjarskiptastöðina Shanwick Radio í Ballygirreen á Írlandi og hefur sinnt þjónustu í írska flugstjórnarsvæðinu í samvinnu við þarlenda fjarskiptastöð. Jafnframt getur írska fjarskiptastöðin veitt stuðning við starfsemi Iceland Radio í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Stöðvarnar eru samtengdar um sæstreng og geta þannig samnýtt starfskrafta sína og tækjabúnað. Þetta samstarf hefur leitt af sér aukna hagkvæmni í rekstri stöðvanna með bættri þjónustu og lægri kostnað.
Fjarskiptastöðin veitir þjónustu fyrir talviðskipti og skeytamiðlun
Starfsemi fjarskiptastöðvarinnar skiptist í tvö meginsvið:
- Talviðskipti við flugvélar (Aeronautical Mobile Service - AMS)
- Rekstur á AFTN/AMHS skeytarofa (Aeronautical Fixed Service - AFS).
Talviðskipti við flugvélar er umfangsmikil starfsemi sem krefst töluverðs mannafla. Í flugleiðsögu á úthafinu sér fjarskiptastöðin Iceland Radio um talviðskipti við flugmenn nema þegar flugvélar eru í kögunarþjónustu (ratsjár/ADS-B) hjá flugumferðarstjórn.
Algengar þjónustur talviðskipta eru:
- Tilkynningar um staðarákvarðanir flugvéla.
- Beiðnir um breytingar á flughæðum eða flugleiðum.
- Afgreiðsla flugheimilda frá flugstjórnarmiðstöð.
- Veðurupplýsingar.
- Upplýsingar til aðgerðastjórnstöðva flugrekenda.
- Tíðniúthlutun og selcal.
AFTN/AMHS skeytamiðlun:
Rekstur skeytarofa AFTN/AMHS felur í sér miðlun skeyta frá fluggagnakerfum til innri og ytri þjónustuaðila. Iceland Radio sér um vöktun á AFTN/AMHS skeytamiðlun í íslenska flugstjórnarsvæðinu.
Fjarskiptatíðnir í notkun
Fjarskiptastöðin Iceland Radio veitir talþjónustu allan sólarhringinn á HF og VHF GP tíðnum.
VHF þjónustan er samfelld yfir norður Atlantshafi. Fjarskiptabúnaður er staðsettur á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Unnið er á VHF 126.550, VHF 127.850 og VHF 129.625.
Megin HF tíðnir í notkun eru 8891 khz, 4675 khz og 11279 khz á daginn og 8864 khz, 4675 khz og 11279 khz á næturnar. HF tíðnir í notkun geta verið breytilegar eftir hlustunarskilyrðum hverju sinni og eru öllu jafnan útgefnar tvisvar á sólahring, eða oftar þegar hlustunarskilyrði eru breytileg eða fara versnandi. Þegar HF hlustunarskilyrði eru slæm er stuðst við hærri tíðnir til vara. Þær eru helstar 11279 khz, 13291 khz og 17946 khz. Fjarskiptastöðin tilkynnir um breyttar tíðnir þegar það á við.
HF þjónusta er almennt veitt á þremur tíðnifjölskyldum
Stöðug hlustvarsla er viðhöfð allan sólahringinn á þessum tíðnum.
Talsamband um gervihnött
Fjarskiptastöðin Iceland Radio getur stuðst við talsamband um gervihnetti IRIDIUM og INMARSAT. Það getur átt við þegar fjarskiptasamband er stopult eða þegar HF hlustunarskilyrði eru léleg. Þegar nauðsyn krefur geta flugmenn hringt beint í fjarskiptastöðina hafi þeir gervihnattasíma um borð. Fjarskiptastöðin getur einnig hringt í flugvélar sem hafa þennan búnað.
Símanúmer fyrir talsamband um gervihnött eru
- Landnúmer: 00-354-5684600
- Stutt númer: 425105
Talsamband við flugumsjón og læknavakt Medlink
Flugmenn geta óskað eftir talsamandi við flugumsjón og læknavakt Medlink þegar þörf krefur. Fjarskiptastöðin getur komið á talsambandi við viðkomandi flugumsjónaraðila eða læknavakt hjá Medlink um HF sambönd við landlínu. Óska þarf eftir slíku talsambandi á vinnutíðni fjarskiptastöðvarinnar.
Gagnafjarskipti við flugvélar
Í samvinnu við bandaríska fjarskiptafyrirtækið ARINC rekur fjarskiptastöðin og Isavia ANS búnað til gagnafjarskipta við flugvélar á HF og VHF tíðnum. Þjónustusvæðið fyrir gagnasambönd CPDLC, ADSC, ADSB er samfellt yfir Norður-Atlantshafi. Gagnafjarskipti við flugvélar eru stöðugt að aukast. Þannig geta flugfélög tekið við gögnum beint frá flugvélum ásamt því að samskipti milli flugvéla og flugstjórnarmiðstöðva hafa í auknum mæli færst yfir á bein gagnaviðskipti.