Svæðið
Íslenska flugstjórnarsvæðið - Reykjavik CTA

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir Norður-Atlantshafi. Þessi lönd eru Bretland, Ísland, Kanada, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Portúgal.
Íslenska flugstjórnarsvæðið ber alþjóðlegu skammstöfunina BIRD. BIRD ásamt efra loftrými grænlenska flugstjórnarsvæðisins ber heitið "Reykjavik Control Area" sem nær yfir svæði frá 61°N að Norðurpólnum, frá 76°W að 30°E. Neðri mörk stjórnaða svæðisins eru breytileg, allt frá jörðu og að 20.000 fetum yfir sjávarmáli þar sem þau eru hæst, en efri hæðarmörk eru engin.
Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið sem er í umsjá Isavia ANS.
Til stjórnunar flugumferðar í svæðinu eru notuð kögunargögn frá ratsjárstöðvum og svokölluðum ADS-B stöðvum sem staðsettar eru víðsvegar um Ísland, við Sumburgh í Skotlandi (SUM), á tveimur stöðum í Færeyjum (FAE) og fimm stöðum á Suður-Grænlandi. Einnig er notast við geimkögun (Space-based ADS-B), þannig að kögunardrægi nær yfir allt Ísland, suðurhluta Grænlands og austur fyrir Færeyjar, allt norður að 70°N.
Aðliggjandi svæði eru:
Skosku svæðin Shanwick (EGGX) og Prestwick (EGPX)
Kanadísku svæðin Gander (CZQX) og Edmonton (CZEG)
Rússneska svæðið St. Peterburg (ULLL)
Norsku svæðin Bodö (ENOB) og Norway (ENOR).
Helstu flugvellir í svæðinu eru í Keflavík, Reykjavík, Akureyri, Vågar í Færeyjum, Söndreström og Thule á Grænlandi.
Efra loftrými yfir Grænlandi - Nuuk FIR

Nuuk FIR svæðið nær yfir allt Grænland upp að 19,500 fetum. Isavia ANS veitir flugleiðsöguþjónustu í efra loftrými Nuuk FIR fyrir norðan 63°30'N sem nær yfir um 3,7 milljónir ferkílómetra svæði en það er um 70% af heildarflugstjórnarsvæði Isavia ANS. Isavia ANS sinnir flugleiðsöguþjónustu í efra loftrými Nuuk FIR fyrir hönd íslenska ríkisins en sú þjónusta hófst með milliríkjasamningi Íslands og Danmerkur sem undirritaður var 1976.
Isavia ANS veitir einnig aðflugs- og flugferlahönnunarþjónustu í Grænlandi ásamt flugprófunum og viðhaldi og uppsetningu á fjarskipta-, kögunar- og leiðsögubúnaði.
Dótturfélag Isavia ANS, Suluk APS sinnir turn- og aðflugsþjónustu á Kangerlussuaq flugvelli.
Aðflugssvæðið

Aðflugsþjónusta fyrir Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll fer fram í flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur. Aðflugssvæðið nær upp í 24.500 fet, eins og innanlandssvæðið og út í u.þ.b. 40 NM frá Keflavíkurflugvelli.
Umferðarmynstur

Umferðarmynstrinu í flugstjórnarsvæðinu er hægt að skipta upp í fimm meginflæði:
- Flugumferð milli Evrópu og N-Ameríku. Mest flogið eftir leiðum sem flugmenn og flugfélög hafa lagt fram óskir um með tilliti til hagstæðustu háloftavinda. Því geta flugleiðir og umferðarmagn breyst frá degi til dags.
- Flugumferð milli Mið-Austurlanda og N-Ameríku.
- Flugumferð milli N-Ameríku og Austurlanda fjær.
- Millilandaflug frá Íslandi til Evrópu og Norður-Ameríku.
- Flugumferð í innanlandssvæðinu og milli Íslands, Grænlands og Færeyja.
Stærsti hluti umferðarinnar liggur milli Evrópu og N-Ameríku. Á daginn liggur meginstreymi flugumferðar frá Evrópu til Bandaríkjanna og til baka að nóttu til.